Prentsmiðjupósturinn
við Aðalstræti 9 (Ingólfsbrunnur). Aðalvatnsból Víkur og sumra hjáleignanna var brunnur þar sem nú er gangstétt við Aðalstræti 9. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá byrjun 18. aldar er getið um Víkurbrunn. Í lýsingu Skúla Magnússonar á Reykjavík frá 1785 segir meðal annars að Reykjavík hafi gott, ósalt vatnsból sem nefnist Ingólfsbrunnur eftir fyrsta landnámsmanni á Íslandi. Má ætla að hér sé fremur átt við brunninn við Aðalstræti 9 en þann sem Brunnhús eru kennd við (Suðurgata 11 og Suðurgata 13). Þetta vatnsból er enn til og er hlaðinn brunnur undir gangstéttinni framan við nýbygginguna í Aðalstræti 9 og var við gerð hússins tekið sérstakt tillit til hans. Brunnurinn var aðalvatnsból Reykvíkinga uns vatnsveitan komst í gagnið árið 1909. Hann var yfirleitt kallaður Prentsmiðjupósturinn (póstur: brunndæla) eftir Landsprentsmiðjunni sem rekin var í Bergmannsstofu (Aðalstræti 9) frá 1844.
Við Prentsmiðjupóstinn var oftast mikið líf og fjör. Þangað áttu margir erindi því þarna var ein helsta fréttamiðstöðin í bænum. Það er sjálfsagt tilviljun, en getur þó verið íhugunarefni, að grundvöllur fyrir útgáfu dagblaðs í Reykjavík virðist ekki vera fyrir hendi fyrr en eftir að þessi fréttamiðstöð og aðrar sambærilegar leggjast niður. Dagblaðið Vísir hóf göngu sína árið eftir og Morgunblaðið nokkru síðar en áður höfðu verið gerðar tilraunir til útgáfu dagblaða í Reykjavík er ekki lánuðust.
Nokkur hópur fólks hafði af því atvinnu á fyrri tíð að bera vatn í hús gegn ákveðinni þóknun. Hér var oft um að ræða kynjakvisti sem nutu lítillar virðingar og gengu undir ýmsum uppnefnum. Enn ganga sögur um Sæfinn með sextán skó (Vesturgata 5a), Gunnu grallara (Melshús), Jón bola, Kristján krumma, Siggu blöðru o.fl. (einnig Hákonarbær.)
← Pósthússtræti 17 | Prestbakki → |