Aðalstræti 12
Þarna var um miðja 18. öld reist bindingsverkshús, Dúkvefnaðarstofa Innréttinganna. Við sölu á eignum Innréttinganna keypti Westy Petræus kaupmaður þetta hús. Var vefnaði eitthvað haldið þar áfram eftir það uns hann lagðist með öllu niður skömmu eftir aldamótin 1800. Þá hafði búið þar ásamt fleira fólki Vigfús Pétursson vefari (Garðastræti 5 og Garðastræti 7). Húsið var mjög óvistlegt, allt sundurnagað af músum sem ekki létu heldur í friði það efni sem vinna skyldi úr. Það var rifið 1810 og stóð lóðin auð fram til ársins 1890 að Matthías Johannessen kaupmaður lét reisa á henni mikið timburhús og rak þar verslun um skeið. Hann varð ekki langlífur en ekkja hans giftist Kristjáni Ó. Þorgrímssyni konsúl (Kirkjustræti 10).
Um aldamótin eignaðist Augusta Svendsen húsið. Hún hafði fyrst kvenna hafið í Reykjavík verslunarrekstur árið 1887 og verslaði með ýmiss konar hannyrðavörur. Var sú verslun rekin þarna áratugum saman. Þá var í húsinu um skeið allumfangsmikil matsala og jafnframt aðstaða til fundar- og samkomuhalds.
Húsið skemmdist mjög í eldi 1. janúar 1977 og var rifið nokkru síðar. Hefur ekki verið aftur byggt á þeirri lóð.
[Viðbót: Árið 1999 var flutt þangað hús kennt við Ísafoldarprentsmiðju sem áður hafið staðið í Austurstræti 8. Þar er nú meðal annars til húsa veitingastaðurinn Fiskimarkaðurinn. [1]]
Heimildir[edit | edit source]
| ← Aðalstræti 11 | Aðalstræti 14 → |