Aðalstræti 14
Upphaflega var reist á þessum stað torfhús á vegum Innréttinganna, svonefnd Voðvefnaðarstofa, sem brann 1764 og var þá í staðinn reist nýtt hús, Spunastofa Innréttinganna. Þegar eignir Innréttinganna voru seldar keypti húsið Westy Petræus, einn umsvifamesti kaupmaður í Reykjavík á þeirri tíð, en lét rífa það 1816. Hafði Spunastofan þá um skeið verið notuð til íbúðar en var talin óvistleg í meira lagi. Þar bjó Runólfur Klemenzson sem verið hafði forstjóri Innréttinganna. Hann drukknaði í Tjörninni 1811 (Lækjarkot).
Ekki var byggt aftur á lóðinni fyrr en um 1825 og stóð það hús, raunar mjög breytt, rúmlega öld. Um miðja öldina átti það Torfi Steinsson söðlasmiður og borgari og var húsið lengi við hann kennt og nefnt Steinsenshús að þeirrar tíðar hætti. Torfi var talinn fyrirmynd iðnaðarmanna hérlendis að þreki, dugnaði og vandvirkni. Miklar ættir eru frá Torfa komnar.
Nokkru fyrir aldamótin síðustu eignuðust húsið bræðurnir Friðrik og Sturla Jónssynir (Laugavegur 1) og ráku þar verslun sem jafnan var nefnd Sturlubúð. Eftir að þeir hættu þar rekstri var þó áfram verslunarrekstur í húsinu uns það var rifið 1931. Ekki hefur aftur verið byggt á þessari lóð.
[Viðbót: Nú er þar veitingastaður í tengslum við hótelið í Aðalstræti 16.]
| ← Aðalstræti 12 | Aðalstræti 16 → |