Alþingishúsið

From ReykjaWiki
Jump to navigation Jump to search

(Kirkjustræti 14) var reist á árunum 1880-1881 á lóð sem keypt hafði verið af Halldóri Kr. Friðrikssyni yfirkennara (Kirkjustræti 12, Líkn). Uppdrætti gerði danski arkitektinn F. Meldahl, forstöðumaður Listaakademíunnar í Kaupmannahöfn, en yfirsmiður, sem einnig var danskur, hét F. Bald (Baldsvegur). Upphaflega var Alþingishúsinu valinn staður þar sem nú er Bankastræti 11 og var byrjað þar á framkvæmdum en arkitektinn aftók með öllu að húsið stæði í brekku. Var þá framangreindur staður valinn. Húsið var reist úr höggnum grásteini sem aðallega var tekinn neðarlega í Skólavörðuholti. Fjöldi manna lærði steinsmíði í sambandi við þessa framkvæmd. Verkinu pokaði vel áfram og sumarið 1880 var lagður hornsteinn hússins. Af því tilefni orti einn byggingarnefndarmanna, Grímur Thomsen skáld og alþingismaður, kvæði sem hefst svo:

Í réttu horfi haldi
hyrningar- valinn -steinn,
sem flöt'r á fægðu spjaldi
sé feldur veggur beinn!
Hvern stein ber vel að vanda
og víti forðast öll,
að stöðug megi standa
stórvaxin frelsishöll.[1]

Húsið var fullgert næsta vetur. Þar var ekki aðeins gert ráð fyrir vistarverum Alþingis. Landsbókasafninu var fengið húsnæði þar, einnig Landsskjalasafninu (síðar nefnt Þjóðskjalasafn), svo og Forngripasafninu (síðar nefnt Þjóðminjasafn Íslands), en það var síðan flutt í nýbyggt hús Landsbanka Íslands við Austurstræti árið 1899. Þessi söfn höfðu áður verið á Dómkirkjuloftinu. Landsbókasafn, Landsskjalasafn og Forngripasafnið voru flutt árið 1908 í hið nýbyggða Safnahús við Hverfisgötu.

Alþingi kom saman í fyrsta skipti í húsinu hinn 1. júlí 1881 og hefur haldið fundi sína þar alla tíð síðan, þegar undanskildir eru þrír hátíðarfundir á Þingvöllum. Með tímanum hefur Alþingi fengið aukið húsnæði í húseignum sem keyptar hafa verið í næsta nágrenni. Einu sinni hefur verið byggt við húsið. Það var árið 1908 að Kringlan, sem svo er nefnd, var byggð sunnan megin við húsið.

Þótt allmikið rýmkaði í húsinu við brottflutning safnanna stóð það ekki lengi því að Háskóla Íslands var árið 1911 fengið húsnæði þar. Þar var hann síðan í sambýli við Alþingi uns háskólabyggingin á Melunum var tekin í notkun árið 1940. En árið 1941 var ríkisstjóra Íslands fengið þarna skrifstofuhúsnæði og síðan forseta Íslands eftir að lýðveldi hafði verið stofnað 1944. Var skrifstofa forseta í Alþingishúsinu uns hún var flutt í Stjórnarráðshúsið árið 1973.

Um húsið segir svo í Alþingisrímum:

Húsið vandað háveggjað
hlær við skærum röðli
Bald á sandi bygði það
Bald hefur landið marg-snuðað.[2]

Næstsíðasta ljóðlínan lýtur að því að einhverjum leist heldur illa á hússtæðið. Í Fréttum frá Íslandi, sem Jónas Jónasson frá Hrafnagili tók saman, segir um þetta: '...en þó að laus væri jarðvegur undir, var það kastmöl, og þótti mönnum, að þar mundi öllu óhætt vera, að húsið sykki eigi á kaf með tímanum' (Jónas Jónasson frá Hrafnagili 1882, 60). — Um niðurlag vísunnar er það annars að segja að ekki hefur almennt verið litið á Bald eins og þar er gert því þingið veitti honum viðurkenningu fyrir vel unnin störf, nokkra fjárhæð eða 'Douceur', eins og komist er að orði í Alþingistíðindum.

Í Alþingishúsinu er margt góðra gripa sem Alþingi hafa áskotnast, einkum í sambandi við Alþingishátíðina 1930. Þá eru þar allmörg málverk af þingforsetum og öðrum sem sérstaklega hefur kveðið að, svo og brjóstmyndir. Stærsta málverkið er mynd eftir Gunnlaug Blöndal af þjóðfundarmönnum 1851.

Alþingishúsgarðurinn var gerður á árunum 1893-1895. Var það mest fyrir atorku Tryggva Gunnarssonar bankastjóra sem vann sjálfur að gróðursetningu þar og sá að einhverju leyti um hirðingu hans. Tryggvi er grafinn í garðinum og er brjóstmynd hans á stöpli sem stendur á gröfinni. Myndina gerði Ríkarður Jónsson.

Heimildir[edit | edit source]

  1. Grímur Thomsen 1906, 35.
  2. Alþingisrímur 1902, 2
Akurey Amtmannsstígur