Kirkjugarðurinn við Aðalstræti

From ReykjaWiki
Jump to navigation Jump to search

Víkurkirkju er fyrst getið í kirknatali Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Ætla má þó að kirkja hafi risið þar fljótlega eftir kristnitöku þótt ekki séu heimildir fyrir slíku. Víkurkirkja var helguð Jóhannesi postula og virðist lengstum hafa verið snauð að jarðeignum og gripum. Kemur það meðal annars fram í máldaga frá 1379. (einnig Kirkjusandur.)

Grafreitur hefur verið gerður við kirkjuna og má ætla samkvæmt framansögðu að hann hafi verið notaður um 800 ára skeið. Nokkuð hefur á hann gengið, bæði vegna bygginga og gatna sem að honum liggja.

Víkurkirkja hefur verið torfkirkja og mun hún hafa staðið í kirkjugarðinum miðjum og snúið aðaldyrum í vestur að hefðbundnum hætti. Þegar grafið var fyrir stöplinum undir minnismerki Skúla Magnússonar kom í ljós grjóthleðsla og mótaði þar fyrir dyrum sem sneru til suðurs en telja verður nokkuð öruggt að hér hafi verið um hliðardyr að ræða.

Síðustu kirkjuna, sem reist var frá grunni, lét Brandur Bjarnhéðinsson, bóndi í Vík, reisa 1724. Brandur var lögréttumaður og sat á Alþingi 1708-1728. Þessi kirkja var torfkirkja. Árið 1770 var hún endurbyggð að nokkru úr timbri. Var þá gerður stöpull fyrir framan bygginguna með turni upp af. Þessi kirkja varð dómkirkja landsins þegar biskupsstóll var fluttur frá Skálholti en þótti heldur lítilfjörleg til slíks hlutverks og var því ráðist í byggingu Dómkirkjunnar sem vígð var 1796. Víkurkirkja var rifin 1798 og sléttað yfir grunninn.

Um 1800 var farið að kvarta verulega undan því að kirkjugarðurinn væri orðinn of lítill en það dróst til 1838 að nýr kirkjugarður væri tekinn í notkun (Kirkjugarðurinn við Suðurgötu). Eftir það var lítið grafið í gamla kirkjugarðinum. Meðal þeirra sem þar voru grafnir var Geir Vídalín, fyrsti biskup í Reykjavík (Aðalstræti 10). Bjarni Thorarensen orti kvæðið 'Vorvísa við leiði Geirs biskups Vídalíns'. Þar segir meðal annars:

Svo er nú í vor, og svo verður hvört vor,
og viljir þú rekja að leiði því spor,
að syrgja Geir biskup, þú gjöra það mátt
að gráta hann liðinn, en ekki þó hátt,
hann þoldi' aldrei heyra neinn gráta!
(Bjarni Thorarensen 1935 (1), 134.)

Þá eru og grafnir þarna Sigurður Thorgrímsen land- og bæjarfógeti og Gunnlaugur Oddsen dómkirkjuprestur.

Árið 1883 fékk H.J.G. Schierbeck landlæknir umráð yfir kirkjugarðinum í því skyni að gera þar skrúðgarð. Schierbeck var fyrsti forseti Hins íslenska garðyrkjufélags 1885. Vann hann mjög að ræktun og lagði þarna grundvöllinn að miklum skrúðgarði. Enn (1987) standa þar tré sem hann gróðursetti og eru það elstu tré í Reykjavík að því að talið er. Árið 1986 var afhjúpaður í garðinum minnisvarði um hann eftir Helga Gíslason.

Schierbeck fékk og leyfi til að reisa íbúðarhús úr timbri við kirkjugarðinn, Aðalstræti 11. Stóð það aftan við húsið Aðalstræti 9. Árið 1893 eignaðist húsið Halldór Daníelsson bæjarfógeti og síðar hæstaréttardómari en hann fór síðastur bæjarfógeta með þau málefni sem fengin voru nýstofnuðu borgarstjóraembætti 1908. Var bæjarfógetaskrifstofan og þar með bæjarskrifstofurnar þarna fram að þeim tíma. Fjölskylda hans hélt áfram ræktun garðsins sem þótti hin mesta bæjarprýði og var þá jafnan nefndur Bæjarfógetagarðurinn.

Hús Schierbecks var rifið árið 1952. Árið 1954 var minnismerki Skúla Magnússonar eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal sett upp í garðinum. Verslunarmannafélag Reykjavíkur gaf styttuna til minningar um hundrað ára frjálsa verslun á Íslandi. Styttan byggir ekki á neinni sviplíkingu því eftir því sem best er vitað er engin samtíðarmynd til af Skúla.

Á síðari árum hefur garðurinn allur verið endurskipulagður. Enn má sjá þar nokkra legsteina frá fyrri tíð. [Viðbót: Nú er þar hellulagður inngangur að hóteli.]

Wikipedia: Fógetagarðurinn

Kirkjugarðsstígur Kirkjugarðurinn við Suðurgötu