Aðalstræti 10
Til skamms tíma var það almenn skoðun að þetta væri elsta hús Reykjavíkur, frá 1752, svo sem tafla, sem fest er á húsið, segir. Þetta mun þó ekki rétt. Þeirri skoðun hefur verið hreyft að um miðja 18. öld hafi dúkvefnaðarstofa Innréttinganna verið reist á lóðinni en hún brunnið 1764 og núverandi hús þá byggt þarna. Einhver vafi þykir þó á að þetta sé að öllu leyti rétt. Nýjustu rannsóknir benda til að byggt hafi verið hús í Reykjavík árið 1762 fyrir bókhaldara Innréttinganna, klæðageymslu og lóskurð. Það kunni að vera þetta hús en Aðalstræti 16 komi einnig til álita. Bæði þessi hús hafi verið byggð á tímabilinu 1759–1774 og teljast því elst húsa í Miðbæ Reykjavíkur. Viðeyjarstofa er hins vegar elsta hús í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, fullgerð árið 1755. Aðalstræti 10 var íbúð undirforstjóra Innréttinganna, en einnig er húsið nefnt 'Kontor- og Magazinhus'.
Westy Petræus, hinn umsvifamikli kaupmaður í Reykjavík um aldamótin 1800, keypti þessa eign ásamt fleirum þegar tekið var að selja eignir Innréttinganna (Austurstræti 1, Hafnarstræti 2). Var húsið um skeið nefnt eftir honum, Petræushús.
Það dróst æði lengi að biskup landsins fengi embættisbústað er hinir fornu biskupsstólar á Hólum og í Skálholti höfðu verið lagðir niður. Geir Vídalín, sem varð biskup Íslands 1801, bjó fyrstu biskupsár sín á Lambastöðum á Seltjarnarnesi svo sem hann hafði gert meðan hann var dómkirkjuprestur. Árið 1807 fékk hann Petræushús til íbúðar og var það síðan lengi nefnt Biskupsstofan. Bjó hann fyrstur biskupa í Reykjavík. Geir biskup var gáfaður lærdómsmaður, ritfær í besta lagi og gamansamur. Hins vegar átti hann við ýmsa erfiðleika að etja í sínum biskupsdómi og þá ekki síst fjárhagsörðugleika enda öllum fjárhagsgrundvelli kippt undan embættinu eftir flutninginn frá Skálholti. Biskup þótti sjálfur lítill fjárgæslumaður en gestrisinn og góðgerðasamur svo að frægt var. Voru iðulega 24–30 manns á heimili biskupshjónanna. Svo fór að biskup varð gjaldþrota sem mun einsdæmi um mann í þeirri stöðu. Var skipuð nefnd til að koma lagi á fjárhag biskups. Hún skammtaði honum vikulega naumt nauðsynjavörur. Átti þetta ekki vel við mann eins og Geir biskup sem komist hafði svo að orði um eldamennskuna á Lambastöðum meðan þau hjón bjuggu þar að á tveim stöðum slokknaði aldrei eldur hjá sér og í helvíti (einnig Kirkjugarðurinn við Aðalstræti). Eftir lát biskups 1823 bjó ekkja hans, Sigríður Halldórsdóttir Vídalín, áfram í Biskupsstofunni til dauðadags 1846.
Alkunn er þessi vísa, fundin á götum Reykjavíkur 1818 og prentuð er í skýringum við ljóð Bjarna Thorarensen:
Gjörðu mig faðir, eg girnist ei meir
af gæðunum heimsins þess arna,
iðinn sem Magnús og góðan sem Geir
og grobbinn sem assessor Bjarna,
vind so ei bresti, þótt vanti mig vit,
að völdunum meðan um tíma eg sit. [1]
Hér er að sjálfsögðu átt við Magnús Stephensen dómstjóra, Geir biskup, sem oft var nefndur Geir góði, og Bjarna Thorarensen skáld og dómara í Landsyfirréttinum, en Bjarni gegndi um þessar mundir stiftamtmannsembættinu um stundar sakir.
Meðan veldi Jörgensens stóð hér árið 1809 lenti þeim harkalega saman Savignac verslunarstjóra (Pósthússtræti 15) og Gísla Símonarsyni kaupmanni (Austurstræti 19 / Lækjartorg 1) út af konu einni. Munaði minnstu að til einvígis kæmi milli þeirra á heimili Geirs biskups en hann stillti til friðar. Kom þá í ljós að marghleypan, sem Savignac hafði fengið Gísla til einvígisins, var óhlaðin. Þá er þess minnst að Geir biskup hratt einum stríðsmanni Jörgensens ofan af útitröppunum og sagði um leið: 'Far þú til helvítis.' (Benedikt Gröndal (Sveinbjarnarson) 1951, 513). Þótti þetta ólíkt biskupi enda var hann lítt trúaður á þá vistarveru sem hann vísaði þarna á og má í því sambandi benda á sálmabókina frægu, Leirgerði sem kölluð var, og hann stóð að með Magnúsi Stephensen dómstjóra.
Meðal heimilismanna hjá biskupshjónunum var Sigurður Pétursson fyrrverandi sýslumaður og eitt fyrsta leikritaskáld Íslendinga ásamt Geir biskupi sjálfum.
M. Smith konsúll (Bernhöftstorfa, Hafnarstræti 18) bjó þarna um 1850 en 1855-1868 Jens Sigurðsson síðar rektor Lærða skólans. Jón Sigurðsson mun hafa búið hjá Jens, bróður sínum, er hann kom til Alþingis frá Kaupmannahöfn. Á eftir Jens bjuggu þarna Jón Hjaltalín landlæknir, Matthías Johannessen kaupmaður og fleiri. Árið 1895 eignaðist Helgi Zoëga kaupmaður húsið og setti þar síðar upp verslun. Um hálfrar aldar skeið versluðu í húsinu hinir þjóðkunnu kaupmenn Silli og Valdi (Sigurliði Kristjánsson og Valdimar Þórðarson) sem eignuðust með tímanum allmargar fasteignir við Aðalstræti og í Grjótaþorpi. Nú hefur verið opnaður veitingastaður í þessu sögufræga húsi (Fógetinn).
Síðan voru reknir þarna ýmsir veitingastaðir, meðal annars Fógetinn, en árið 2001 eignaðist Reykjavíkurborg húsið og það var fært til fyrra horfs. Nú er þarna sýning um sögu Reykjavíkur.
Heimildir[edit | edit source]
- ↑ Bjarni Thorarensen 1935 (II), 230
| ← Aðalstræti 9 | Aðalstræti 11 → |