Aðalstræti 16

From ReykjaWiki
Jump to navigation Jump to search

Lóskurðstofan. Sú skoðun hefur verið ríkjandi að þetta hús sé að stofni meðal hinna upphaflegu húsa Innréttinganna. Nýjustu rannsóknir benda til þess að þetta sé ekki óyggjandi (Aðalstræti 10). Elsti hluti hússins er hugsanlega frá 1762 og er úr bindingsverki. Húsið var selt eins og flest hús Innréttinganna 1791. Kaupandi var maddama Angel sem setti þar á fót veitingasölu. Hún hefur þó getið sér meira orð fyrir það að hún má teljast brautryðjandi á sviði garðyrkju í Reykjavík ásamt Scheel tuktmeistara (Stjórnarráðshúsið). Hún hlaut sérstök verðlaun frá Landbúnaðarfélaginu danska fyrir framtak sitt við garðyrkju á þessum stað.

Árið 1796 keypti stjórnin húsið handa landfógetaembættinu og var þarna skrifstofa þess og íbúð landfógeta uns Bergmannsstofa var keypt 1830. Þá gaf stjórnin húsið í því skyni að þar yrði sett á fót svokallað 'fátækrahús' en í stað þess var þarna stofnaður barnaskóli. Þar sem engin fjárveiting fékkst til skólahalds var ákveðið að nota fé úr sjóði þeim sem Jón Þorkelsson skólameistari hafði stofnað, Thorkilliisjóði, en árið 1848 komst stiftamtmaður að þeirri niðurstöðu að slíkt væri með öllu óheimilt. Þar sem ekki fékkst fjárveiting fremur en fyrr lagðist skólahaldið niður. Lengst af tímans voru þeir skólastjórar Ólafur E. Hjaltested, síðar prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, og Pétur Guðjohnsen organisti (Tjarnargata 6).

Eftir að skólahaldið lagðist niður keypti húsið Jón Guðmundsson alþingismaður og ritstjóri Þjóðólfs (Melshús) og bjó þar til æviloka 1875. Þaðan stjórnaði hann blaði sínu Þjóðólfi áratugum saman.

Heimili Jóns og Hólmfríðar Þorvaldsdóttur konu hans var eitt merkilegasta menningarheimili landsins á sinni tíð og öruggt athvarf ýmissa menntamanna, 'eitthvert glaðasta heimili á öllu landinu', segir Indriði Einarsson. Og hann sagði einnig: 'Enginn, sem var boðinn þar eina kvöldstund gleymdi fólkinu þar síðar. Í húsi Jóns Guðmundssonar var mjög talað um leiklist og skáldskap'[1] (Kirkjustræti 2). Ekki er að efa að þar hefur og stjórnmál borið á góma enda Jón í fremstu víglínu á þeim vettvangi.

Árið 1889 eignaðist Hans Andersen klæðskeri húsið og bjó fjölskylda hans þar um sjö áratugi. Hann lét árið 1895 rífa mikið af gamla húsinu og byggja húsið upp. Gaf hann því það svipmót sem það ber enn. Var húsið síðan notað aðallega til verslunar en einnig íbúðar, og svo er enn. Þar var í útbyggingu kaffi- og billjarðstofa, '... með danskri yfirskrift, sem enginn skilur nema lærðir menn', segir Benedikt Gröndal [2]. Sú bygging er löngu horfin.

[Viðbót: Nú er þar hótel.]

Heimildir[edit | edit source]

  1. Indriði Einarsson 1936, 113
  2. Benedikt Gröndal (Sveinbjarnarson) 1951, 514
Aðalstræti 14 Aðalstræti 18