Aðalstræti 6
Einhvern tímann á árabilinu 1755-1759 var reistur á þessum stað lítilfjörlegur kofi, Móhúsið, sem alllengi var notaður til geymslu á mó handa Innréttingunum. Eftir að Innréttingarnar voru úr sögunni um 1800 var kofinn rifinn og í staðinn gerður þarna ágætur kartöflugarður. Sú nýting lóðarinnar hélst næsta aldarfjórðunginn en 1825 var reist þarna íbúðarhús. Þórður Jónassen einn helsti valdamaður landsins áratugum saman eignaðist það 1838 og bjó þar til dauðadags. Var húsið við hann kennt (Þórðar Jónassenshús). Þórður var um skeið settur stiftamtmaður, dómari og síðar dómstjóri í Landsyfirrétti, gegndi sýslumannsembættum, embætti landfógetal og var lengi konungkjörinn þingmaður; mætti bæta ýmsu við þann metorðalista. Þórður þótti maður prýðilega gefinn en talið var að á seinni árum sínum hefði honum förlast nokkuð og var kennt um óhóflegum reykingum! Synir hans voru Eggert Theodór Jónassen amtmaður (Ingólfsstræti 9) og Jónas Jónassen, landlæknir (Lækjargata 8).
Um skeið bjó Kristján Kristjánsson land- og bæjarfógeti í húsinu. Kristján mun hafa átt mikinn þátt í 'pereatinu' 1850 (Austurstræti 1). Fyrir afstöðu sína á þjóðfundinum 1851 var honum vikið úr embætti en hann varð seinna amtmaður á Möðruvöllum í Hörgárdal. Árið 1892 eignaðist Sigurður Jónsson járnsmiður húsið, stækkaði það mikið og lét reisa járnsmiðju að húsabaki. Hjá Sigurði lærðu ýmsir járnsmiðir sem síðar urðu kunnir. Af þeim mætti nefna Bjarnhéðin Jónsson sem eignaðist bakhús þarna á lóðinni árið 1901, bjó þar og hafði smiðju. Varð það upphaf Vélsmiðjunnar Héðins.
Í framhúsinu við Aðalstræti var verslunarrekstur fram til um 1950 en þá var húsið rifið og í staðinn reist hið mikla hús sem löngum var kennt við Morgunblaðið. [Viðbót: Nú er þar hótel (Mynd).]
| ← Aðalstræti 4 | Aðalstræti 7 → |