Aðalstræti 7
Einhvern tímann á árunum 1755-1759 var reist á þessum stað fjós sem tilheyrði Innréttingunum eða forstjórahúsi þess, Bergmannsstofu. Var það kallað Bergmannsfjós. Um skeið tilheyrði fjósið biskupi, er bjó handan götunnar, og var þá nefnt Biskupsfjós. Einar Jónsson stúdent og borgari (Hafnarstræti 10 og Hafnarstræti 12) eignaðist fjósið með tilheyrandi lóð snemma á síðustu öld en á lóð þar fyrir norðan, þar sem staðið hafði Sunchenbergspakkhús, reisti hann íbúðar- og verslunarhús (Austurstræti 2). Milli nýja hússins og fjóssins myndaðist stígur inn á Austurvöll og er það upphafið að Vallarstræti.
Bergmannsfjós stóð lengi en þótti undir lokin svo hrörlegt orðið að bæjarstjórn tók á sig rögg 1846 og fyrirskipaði niðurrif þess. Má ætla að það sé í fyrsta skipti sem bæjarstjórnin sýndi af sér slíka röggsemi. Vera má að því hafi meira valdið siðferðileg vandlæting vegna lífernis í þessari vistarveru en umhverfissjónarmið eins og nú mundi kallað.
Þá var þar reist geymsluhús handa Landsprentsmiðjunni sem var til húsa í Bergmannsstofu en ekki stóð það mjög lengi því að um 1880 reistu þeir frændur, Jón Vídalín konsúll (Mjóstræti 3) og Páll Eggerz kaupmaður, þarna hús það sem enn stendur. Var það nefnt 'Frændahúsið' eða 'Frændaverslunin'. Um aldamótin eignaðist Brynjólfur H. Bjarnason kaupmaður húsið og var þar rekin áratugum saman Verslun B.H. Bjarnason eins og hún hét formlega. Brynjólfur var bróðir Ingibjargar H. Bjarnason skólastjóra Kvennaskólans. Bræður þeirra voru Ágúst H. Bjarnason prófessor, Lárus H. Bjarnason, síðast hæstaréttardómari og Þorleifur H. Bjarnason, yfirkennari við Menntaskólann í Reykjavík. Verslunarrekstur fer enn fram í húsinu. Á því hafa verið gerðar nokkrar breytingar hið innra en að utan er það að mestu óbreytt.
[Viðbót: Árið 2002 var óskað eftir leyfi til að rífa núverandi hús eða flytja það til að rýma fyrir nýbyggingu á lóðinni. Árbæjarsafn og Húsafriðunarnefnd ríkisins lögðust gegn þeim áformum og var farið eftir því. Í dag bíður húsið eftir því að vera gert upp.]
| ← Aðalstræti 6 | Aðalstræti 8 → |