Aðalstræti 8

From ReykjaWiki
Jump to navigation Jump to search
Fjalakötturinn

Upphaflega stóð á þessum stað eitt af geymsluhúsum Innréttinganna en það var selt 1791 eins og fleiri af eignum fyrirtækisins. Var það innréttað til verslunarrekstrar en síðar var það rifið og var þá reist í staðinn timburhús sem framan af var kennt við eigandann, Einar Hákonarson hattara frá Hákonarbæ, og kallað Hákonsenshús. Sums staðar er talið að Hákonsenshús hafi verið reist þegar 1791 en hér skal ekki fullyrt um það.

Jónas Hallgrímsson bjó um skeið í Hákonsenshúsi síðasta tímabilið sem hann dvaldist í Reykjavík. Þar sneri hann 'Úrsíns stjörnufræði' og orti 'Dagrúnarharm' eftir boði Helga biskups [Thordersens] en Helgi sendi Jónasi tvær portvínsflöskur fullar til launa. Í þessu húsi uppi á lofti andaðist Sigurður Breiðfjörð (21. júlí 1846) Fischerssund 1 og 'var jarðsettur ræðulaust'. (Benedikt Gröndal)[1]

Benedikt Gröndal, sem bjó síðar í sama herbergi og Jónas hafði búið, segir að þótt húsið hafi verið traustlega byggt í upphafi hafi það orðið óálitlegt með tímanum 'þangað til það fékk upprisunnar dýrð fyrir Breiðfjörðs kraft' (Sama rit, 513). Þá er átt við Valgarð Ó. Breiðfjörð, kaupmann og útgerðarmann, sem var tengdasonur Einars Hákonarsonar. Valgarður Ó. Breiðfjörð (d. 1904) kom allmikið við sögu bæjarins á sínum tíma (einnig Brattagata 6). Hann lét stækka húsið, bæði byggja við og hækka, hvað eftir annað. Var sumt gert með leyfi yfirvalda, annað ekki og varð af nokkur rekistefna. Hann lét innrétta bakhúsið sem leikhús og var gengið inn í það frá Bröttugötu. Var það fyrsta leikhús landsins. Í leikhússalnum voru, auk leiksýninga, alls konar samkomur haldnar, fundir og skemmtanir. Árið 1893 eða skömmu eftir það mun húsið vera orðið svipað útlits og það var síðan. Ekki þótti smíði þess vönduð og fyrir vikið hlaut það gælunafnið eða uppnefnið Fjalakötturinn sem haldist hefur fram á þennan dag.

Árið 1906 hóf þarna göngu sína Reykjavíkur Biograftheater sem síðar var nefnt Gamla Bíó og starfaði þarna til 1927 er það fluttist í nýtt hús við Ingólfsstræti. Kvikmyndasalurinn, sem talinn var rúma 300 manns, var enn til að miklu leyti óbreyttur fram til ársins 1984. Hann var talinn einn hinna elstu sem fyrirfyndust í heiminum.

Um skeið var þarna aðalbækistöð Kommúnistaflokks Íslands og varð á stundum róstusamt í kringum fundi sem flokkurinn hélt í salnum.

Verslunarrekstur var jafnan í húsinu og einnig var það leigt til íbúðar. Meðal þeirra sem þar bjuggu langa hríð má nefna hinn kunna útvarpsmann Helga Hjörvar rithöfund og fjölskyldu hans.

Síðustu árin var húsið lítið notað og hrörnaði talsvert. Stóð mikill styr um hvort ætti að varðveita það. Lyktir urðu þær að kvikmyndasalurinn var rifinn 1984 en árið eftir var Fjalakötturinn rifinn til grunna.

[Viðbót: Tryggingamiðstöðin byggði þar skrifstofuhúsnæði við hlið Morgunblaðshússins en nú eru þar íbúðir og verslun á neðstu hæð.]

Heimildir[edit | edit source]

  1. Benedikt Gröndal (Sveinbjarnarson): Ritsafn II. Gils Guðmundsson sá um útgáfuna. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja, 1951, 513
Aðalstræti 7 Aðalstræti 9