Aðalstræti

From ReykjaWiki
Jump to navigation Jump to search
Aðalstræti árið 1898. Horft til norðurs. Lengst til vinstri sést í Fjalaköttinn. Við enda götunnar er Bryggjuhúsið sem H.P. Duus reisti 1863. (Ljósmyndari Frederick W. Warbreck Howell - Þjóðminjasafnið)

er í Miðbænum og er talið vera elsta gata landsins. Þar sem það liggur nú mun sjávargata Víkurbænda að öllum líkindum hafa legið frá upphafi landnáms í Reykjavík, þ.e. frá bæjarhúsunum sem hafa að flestra áliti verið syðst við Aðalstræti og niður í Grófina. Við stofnun Innréttinganna um miðja 18. öld verður þessi stígur aðalgatan í hinu fyrsta skipulagða þéttbýli landsins. Hús Innréttinganna rísa báðum megin við hana en fyrir voru kirkjan og kirkjugarðurinn (Kirkjugarðurinn við Aðalstræti). Gatan var að þeirrar tíðar hætti nefnd Hovedgaden, síðar Adelgaden, Klubgaden eða Klúbbgatan (Kirkjustræti 2); en 1848 er henni formlega gefið nafnið Aðalstræti sem hún ber enn í dag.

Hér var sannarlega um aðalgötu að ræða. Fyrstu áratugina í sögu þorpsins og síðar kaupstaðarins var þetta nánast eina gatan sem nokkuð kvað að. Svo til öll stjórnsýsla og allur atvinnurekstur, sem þéttbýlissnið var á, fór fram við þessa götu svo sem frásagnir um einstök hús, sem hér verða nefnd á eftir, bera með sér. Þarna voru einnig samkomustaðir, svo og heimili margra meiri háttar borgara. Ekki dró það úr að við Aðalstræti var helsta vatnsból bæjarins (Ingólfsbrunnur) og þar með fréttamiðstöð síns tíma uns dagblöðin tóku við. Frá Aðalstræti fóru smátt og smátt að myndast götur sem enn í dag eru megingötur í Miðbænum: Hafnarstræti, Austurstræti, Vesturgata, svo að dæmi séu nefnd.

Svipmót Aðalstrætis breyttist fremur lítið fram undir síðustu aldamót. Þá gerðist hvort tveggja, að gömlu húsin frá tímum Innréttinganna tóku að týna tölunni eða farið var að byggja við þau eða breyta á annan hátt, og svo hitt að allstór timburhús taka að rísa. Jafnframt fjölgar þar verslunum og ýmiss konar þjónustufyrirtækjum.

Ekki eru tiltækar upplýsingar um íbúafjölda í Aðalstræti fyrr en 1901. Þá eru þeir rúmlega 100. Næsta aldarþriðjung fjölgar þeim, þannig að 1933 eru þeir rúmlega 150 en á stríðsárunum snarfækkar íbúum við götuna og árið 1950 eru þeir um 80 og enn fækkar stórlega því að 1. desember 1985 eru þeir aðeins 7.

Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um skipulag við Aðalstræti. Um allmarga áratugi var sú skoðun ríkjandi að gamla byggðin skyldi með öllu þurrkuð út og margra hæða stórhýsi reist í staðinn. Jafnframt var gert ráð fyrir mikilli fyrir mikilli breikkun Aðalstrætis, þannig að það yrði nánast torg. Gatan ber vissulega svipmót mismunandi skipulagshugmynda og þeirrar óvissu sem ríkt hefur á þessu sviði. Á síðustu árum hefur varðveislusjónarmiðum aukist fylgi en eftir er að vita hver verða örlög þessarar götu Ingólfs landnámsmanns.

Aðalstræti 2