Aðalstræti 9

From ReykjaWiki
Jump to navigation Jump to search
Horft norður Aðalstræti. Landsprentsmiðjan var í Bergmannsstofu, fremst til hægri. Vinstra megin götunnar fyrir miðri mynd snýr Fjalakötturinn gafli að götunni. (Sigfús Eymundsson)

Nýjustu rannsóknir benda til að upphaflega húsið á þessari lóð hafi verið reist á árunum 1756–1757 en ekki 1752–1754 eins og áður var talið. Það var forstjórahús Innréttinganna. Fyrsti forstjórinn hét Danneberg og var vefari að iðn en eigi að síður stjórnaði hann byggingu verksmiðjuhúsanna sem risu á þessum árum við Aðalstræti. Telja verður nokkuð öruggt að Danneberg hafi fyrstur manna búið í forstjórahúsinu.

Forstjórahúsið var allstórt hús, múrað í binding. Það var selt árið 1791 og varð eign Þorkels Bergmanns sem var síðasti forstjóri Innréttinganna (Viðey). Húsið var síðan lengi kennt við hann og nefnt Bergmannsstofa. Dóttir Þorkels var Sire (Sigríður) Ottesen (Suðurgata 2). Nokkru eftir aldamótin 1800 bjó Thomas Klog landlæknir í Bergmannsstofu. Hann var fyrsti læknir sem búsettur var í Reykjavík. Eftir dauða Þorkels (1815) gekk eignin kaupum og sölum um skeið uns stjórnin keypti hana 1830 í því skyni að þar yrði skrifstofa og embættisbústaður land- og bæjarfógeta er þá var orðinn R.C. Ulstrup (Austurvöllur). Áður hafði land- og bæjarfógeti haft aðsetur í Lóskurðarstofunni.

Jónas Hallgrímsson skáld var um tíma skrifari hjá Ulstrup en vinum Jónasar líkaði ekki vel sú ráðabreytni hans. Tómas Sæmundsson skrifaði Jónasi til dæmis á þessa leið: 'Að eyða beztu tíð sinni hjá öðrum eins dóna og Úlstrúp, sem ekki veit orð í sinn haus! Guð hjálpi mér!' (Tómas Sæmundsson: 1907, 50). Hvað sem þessu líður þótti Ulstrup röskur til embættisstarfa. Jónas Hallgrímsson virðist hins vegar hafa notið lífsins í Reykjavík á skrifaraárum sínum, gekk um göturnar í heiðbláum frakka með logagylltum hnöppum. Í afmæliskvæði Jónasar til Ulstrups 26. mars 1831 segir meðal annars:

I dig, o Ulstrup, har vi fundet
en ædel Ven, paa Glæder rig;
du Venskabs Baand med os har bundet
og elskes af os inderlig.
Oprigtighed i Ordet bor;
bliv længe her hos os i Nord. [1]

Áður en Bergmannsstofa var tekin til þessara þarfa bjuggu þarna ýmsir kunnir menn, til dæmis dómkirkjuprestar Reykvíkinga, þeir Brynjólfur Sigurðsson (Sívertsen) og Gunnlaugur Oddsen. Þá bjó Bjarni Thorarensen yfirdómari og skáld þar um tíma.

Þegar ákveðin var endurreisn Alþingis í Reykjavík þótti nauðsynlegt að greiður aðgangur væri að prentsmiðju til að prenta Alþingistíðindi. Varð því að ráði að prentsmiðjan, sem verið hafði í Viðey frá 1819, yrði flutt til Reykjavíkur. Eftir nokkrar vangaveltur var ákveðið að ætla henni stað í suðurenda Bergmannsstofu. Fór sá flutningur fram 1844 og þurfti mjög að hressa upp á húsið, sem komið var í niðurníðslu, svo og tækjabúnað prentsmiðjunnar sem ekki var burðugri en svo að 1845 var talið að unnt væri að prenta þar aðeins tvær arkir á viku! Var eitthvað úr þessu bætt og auk þess fengnir prentarar frá Danmörku því að ekki var hér margra slíkra völ.

Landsprentsmiðjan, en svo nefndist prentsmiðjan þegar hér var komið sögu, var eina prentsmiðjan í Reykjavík uns Ísafoldarprentsmiðja tók til starfa 1877 (Austurstræti 8), ef undan er skilin lítil prentsmiðja sem rekin var stuttan tíma án leyfis að Elliðavatni. Höfðu yfirvöldin því gott tækifæri til þess að fylgjast með því sem prentað var og halda uppi tiltekinni ritskoðun enda ekki prentfrelsi hérlendis fyrr en 1874.

Einar Þórðarson frá Skildinganesi var lengi prentsmiðjustjóri og keypti hann prentsmiðjuna og rak frá 1877 til 1886 en þá hafði Ísafoldarprentsmiðja orðið ofan á í samkeppninni og keypti tæki hennar. Einar hafði verið mikill dugnaðarmaður, bæjarfulltrúi um skeið og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélagið, var meðal annars slökkviliðsstjóri. Þá hafði hann verið framarlega í samtökum iðnaðarmanna, meðal annars fyrsti formaður Iðnaðarmannafélagsins sem stofnað var 1867. Hins vegar varð honum margt mótdrægt á ævikvöldinu og er talið að því sé nokkuð lýst í einni smásögu Gests Pálssonar, Grímur kaupmaður deyr.

Eftir daga Einars Þórðarsonar hrörnaði húsið mjög og var rifið árið 1902. Þar hafði þá meðal annars verið rekin ölstofa, svo og baðhús við heldur lítinn orðstír. Síðast var húsið notað til vörugeymslu. Í staðinn var reist allstórt timburhús sem notað var til íbúðar, verslunar og veitingarekstrar. Það hús skemmdist mjög af eldi árið 1967. Var þá reist þar í staðinn steinhús og er það aðallega notað til verslunarreksturs og veitingastarfsemi.

Þar sem nú er gangstétt við Aðalstræti 9 var áður vatnsból (Ingólfsbrunnur).

Heimildir[edit | edit source]

  1. Rit eftir Jónas Hallgrímsson I. Ljóðmæli, smásögur o.fl. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja [án árs]


Aðalstræti 8 Aðalstræti 10