Aðalstræti 18

From ReykjaWiki
Jump to navigation Jump to search

Á þessari lóð stóð Ullarstofa Innréttinganna. Það var torfhús sem sneri gafli að Aðalstræti en langhlið að Túngötu sem síðar varð. Húsið var selt nokkru fyrir aldamótin 1800 og gekk síðan kaupum og sölum til 1830. Um það leyti eignaðist húsið Davíð Helgason pakkhúsmaður. Hann lét rífa gamla torfhúsið og reisti í staðinn lítið timburhús. Var það kennt við hann og nefnt Davíðshús. Davíð bjó með systur sinni sem Guðrún hét. '... hún gerði öl, og varð þá enginn til þess annar hér; það var ekki áfengisöl, en enginn gat drukkið það nema með andköfum' (Benedikt Gröndal)[1].

Sigurður Guðmundsson málari bjó síðustu ár sín í Davíðshúsi. Sigurður var fyrsti myndlistarmaðurinn sem starfaði í Reykjavík. Hann lét sig mjög varða ýmisleg menningarmál, átti til dæmis frumkvæði að stofnun Þjóðminjasafnsins. Séra Matthías Jochumsson lýsir svo síðasta fundi sínum og málarans, vinar síns: 'Málara-auminginn er að deyja -- úr bjúg og tæringu. Eg sat (í Davíðshúsinu) yfir honum í gærkvöldi, og gjörði 'skeifur' þegar ég gekk út. Hann lá í hundafletinu í einum bólgustokk, ískaldur undir tuskum og aleinn -- og banvænn! alltaf að tala um, að ekkert gangi með framför landsins.' (Matthías Jochumsson)[2]. Nokkru seinna var Sigurður fluttur á spítalann (Kirkjustræti 2) og þar lést hann 7. september 1874. Það hefur nýlega komið fram að Sigurður hafi engan veginn verið eins illa staddur fjárhagslega og haldið hefur verið en það haggar varla þeirri lýsingu sem hér var rakin.

Magnús Árnason snikkari (Túngata 2), sem eignast hafði Davíðshús, reif það um aldamótin og reisti í staðinn stórt og skrautlegt timburhús sem jafnan var nefnt Uppsalir. Þar var mjög vinsæll veitingastaður áratugum saman auk þess sem húsið var notað til íbúðar. Veitingastaðurinn Uppsalir var um skeið slíkt höfuðból ungra gáfumanna að ráðsettum borgurum þótti til vandræða horfa. Tómasi Guðmundssyni skáldi segist svo frá: 'Við bekkjarbræðurnir, sérstaklega við Halldór [Laxness] og Sigurður [Einarsson] héldum vitanlega mest hópinn. Venjulega fórum við að loknum kennslutíma niður á kaffihúsið Uppsali, sem þá var mikill samkomustaður ungra menntamanna, og stundum slógust fleiri í hópinn svo sem [Guðmundur] Hagalín og Jóhann Jónsson. Þá bar margt á góma og trúað gæti ég því, að við hefðum stundum mátt hafa eitthvað hægara um okkur. Ég man að roskinn verslunarstjóri, sem borðaði á Uppsölum, tók sig til og skrifaði stutta blaðagrein, þar sem hann bar sig upp undan okkur þessum ungu mönnum, sem gengju við broddstaf, þættust vera skáld og hefðu skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Ég býst við að þetta hafi verið eina ritgerðin, sem maðurinn skrifaði um dagana ...'[3].

Löngu síðar var veitingarekstri þessum hætt um tíma en tekinn svo aftur upp í kjallara hússins. Fékk húsið að standa til ársins 1969 en þá var það rifið og hefur ekki verið byggt aftur á lóðinni.

Heimildir[edit | edit source]

  1. Benedikt Gröndal (Sveinbjarnarson) 1951, 514
  2. Matthías Jochumsson 1935, 235
  3. Tómas Guðmundsson 1960, 39
Aðalstræti 16 Akurey